Tveir montrassar

Monday, October 27, 2008

Hann má það...

Inga segir núna iðulega þegar ég segi við hana að vera ekki að taka dótið af Kristni: "Hann má leika með þetta þegar hann verður minni" ........aðeins að ruglast:)

Inga er með svo gott ímyndunarafl að það er alveg frábært. Hún getur leikið sér með hvað sem er og gert úr því leik. Hún til dæmis býr til samloku fyrir mig úr kubbum, vefur tusku utan um dúkkur og bangsa og segir að þau séu í kjól og fleira. Þegar hún er á milli fótanna á mér þá er hún iðulega í flugvél, bíl, húsi o.s.frv. Hún biður mig um að láta fæturna saman og þannig loka rýminu. Þá kemst t.d. ekki Mikki refur til okkar:).

Kristinn er mikið matargat. Við gáfum honum bæði svínalund og lambalæri um helgina og hann var ekkert smá ánægður. Maður með mönnum! Hann brosti sínu breiðasta og sagði: "namm namm". Hann er farinn að reyna að standa upp, þannig að það er stutt í enn meira fjör á þessum bæ:).

Sunday, October 19, 2008

Maaaammmaa.....

Segir drengurinn núna eins og hann hafi ekki gert annað:) Duglegur strákur og mamman í skýjunum auðvitað:) hehe

Wednesday, October 15, 2008

Nýböðuð og sæl fyrir svefninn


Sunday, October 12, 2008

Duglegi Kristinn

Í gullmolaregninu hennar Ingu þá gleymist bara alveg að segja fréttir af litla herramanninum á heimilinu.

Kristinn er alveg svakalega sterkur og duglegur strákur. Hann er farinn að borða 3-4 sinnum á dag, auk þess sem hann er enn á brjósti. Hann er farinn að skríða hermannaskriði og er fljótur frá a til b. Hann byrjaði að skríða fyrir alvöru í þessari viku, var þó nokkru áður farin að mjaka sér aðeins áfram.
Hann er duglegur að dunda sér og er alveg ótrúlega meðfærilegur. Síbrosandi og sæll. Algjört draumabarn!

Tveir gullmolar

Við vorum að keyra heim "í nóttinni" eins og Inga kallar það og Inga segist vera hrædd. Pabbi hennar fjölhæfi heldur í höndina hennar með annarri hendi um leið og hann keyrir. Þá segir Inga "sjáiði, bíllinn getur keyrt sjálfur".

Inga fór í 2 afmæli í dag og svo beint í mat til ma og pa. Þegar hún var búin að borða þar með bestu lyst kjöt og tilheyrandi þá sagðist hún vilja fá ís. Ég sagði við hana að það gæti nú ekki verið pláss í maganum fyrir meira. Hún sagði víst og benti svona til hliðar á maganum sínum og sagði að þar væri pláss fyrir ís. Og til að undirstrika mál sitt þá benti hún svo á miðjan magann á sér og sagði að þar væri kjötið!

Thursday, October 09, 2008

Snilld

Ég sagði við Ingu þegar ég náði í hana í leikskólann að ég ætlaði að gefa henni jógúrt með röri þegar við kæmum heim. Þá sagði sú stutta:

"Sem þú keyptir í Ikea"

Monday, October 06, 2008

Karíus og Baktus ekki velkomnir

Samtal í morgunsárið.

Inga: "Mamma, Karíus og Baktus mega ekki koma til okkar"
Ég: "Nei, þeir koma ekki til okkar ef við erum duglegar að bursta tennurnar"
Inga: "Þeir mega ekki borða köku hjá okkur"
Ég: "Nei, þú manst að maður má ekki borða mikið af kökum og nammi, þá koma þeir kannski í heimsókn"
Inga: "Þeir mega ekki koma í Brautarland, og ekki heldur Mikki refur....."

Og eitt í viðbót sem Inga sagði við mig á laugardagsmorguninn. Inga er farin að færa rök fyrir máli sínu.
"Mamma, má ég fá nammi út af því að það er föstudagur...."

Friday, October 03, 2008

Við erum með alvöru kinnar....:)



Wednesday, October 01, 2008

Inga og ímyndunaraflið....

"Mamma hlaupum, það er draugur að koma....."
"Passaðu þig, ljónið......"
og núna seinast í morgun þegar við vorum að labba í leikskólann í gegnum trjágöng hérna í Fossvoginum, þá segir litla krúttið: "Núna erum við í frumskóginum mamma."

Inga er rosalega dugleg að leika sér. Situr með fullt af dóti og talar við dótið. Var til dæmis með fullt af lego-i í gær og sagði: "jæja krakkar, sitið þið hér......það er nóg pláss fyrir alla....ég passa ykkur...." o.s.frv. Við vorum líka að þykjast vera i flugvél um daginn, þ.e. ég, Inga, Kristinn og tonn af böngsum. Ég lék flugstjórann inn á milli og sagði að allir ættu að vera prúðir og stilltir í flugvélinni, spenna beltin og svoleiðis. Inga lék þetta auðvitað eftir og sagði allt í einu kæfðri og nefmæltri röddu: "Góðir farþegar, spennið beltin!"