Tveir montrassar

Tuesday, May 22, 2007

Inga talar í setningum!

Alltaf eykst orðaforðinn hjá Ingu Bríeti. Fyrsta 2 orða setningin sem hún sagði var "taka mig" og hefur sagt það í þónokkurn tíma. Í gær þegar hún vaknaði sló hún hinsvegar um sig og myndaði 2 fjögurra orða setningar. Fyrst var það: " Hvar eru sokkarnir mamma" og svo strax á eftir "Hvar er Karen mamma". Við foreldrarnir göptum bara!

Annars er hún bara eldhress og við líka:)

Monday, May 14, 2007

Prakkarasvipurinn

Hvað getur maður sagt, hún er yndisleg:)

Inga og dýrafræðin

Inga á bækur með myndum af dýrum og getur bent á kisu, voffa og bíbí.

Við mæðgurnar vorum úti í góða veðrinu í seinustu viku og sáum kött. Ég sagði við Ingu: "Sjáðu kisu". Inga brosti og sagði:"Gobbidigobbidigobb....."

Við þurfum greinilega aðeins að fara betur yfir dýrafræðina:) hehehe

Tuesday, May 08, 2007

Feðginin

Flottu feðginin í Húsafelli fyrir nokkrum vikum síðan.

Dagvistunarmál

Þessa dagana bíðum við með krosslagða putta eftir að fá að vita með leikskólapláss handa Ingu Bríeti. Við sóttum um 5 leikskóla, eins marga og hægt er semsagt. Ég er búin að hringja reglulega í þjónustumiðstöð hverfisins til að hlera stöðuna. Í byrjun árs fékk ég að vita að ég myndi fá svar í mars. Í mars kom ekkert svar. Þá átti ég að fá svar í lok apríl og þegar ég hringdi um daginn þá var mér sagt að það myndi teygjast fram yfir mánaðarmótin.
Í janúar hringdi ég líka í dagmömmur í hverfinu en þær voru bara með laust með haustinu, þannig að ég setti hana ekki einu sinni á bið hjá þeim því þá reiknaði ég með að vera komin með leikskólapláss miðað við þær upplýsingar sem ég fékk hjá þjónustumiðstöðinni.
Ég sótti líka um á einum einkareknum leikskóla sem ég tékka á ef þetta blessaða bréf ætlar ekki að fara að skila sér.

Allavega, það var svo sem búið að segja manni að þetta væri mikið mál með leikskólana og dagmömmurnar og kannski fór maður of seint af stað að athuga þetta. Ég fékk svo þær fréttir á leikskólanum hans Bergs sem við skoðuðum um daginn (þar sem að hann er á listanum) að þar ætti að fækka leikskólaplássum fyrir yngstu börnin. Hvaða rugl er það?? Það væri nú betri hugmynd að byggðir væru fleiri skólar til að mæta eftirspurninni. Vandinn liggur líklega í laununum, það fæst ekkert starfsfólk. En þegar það er farið að fækka plássum á leikskólum sem eru nú þegar starfandi þá er þetta orðið hálf vonlaust!!

Ekki það að við Inga unum okkur ekki vel saman:) Það eru auðvitað forréttindi að geta verið svona lengi heima með henni og það verða viðbrigði að setja hana í pössun þegar þar að kemur:/ En maður verður bara að líta á það þannig að hún hefur gott af því að vera innan um önnur börn, og ekki síst gaman að því!! Fyrsta orðið sem hún segir á hverjum degi er "krakkarnir".

Monday, May 07, 2007

Inga Bríet fjörkálfur

Það var nóg um að vera hjá Ingu Bríeti um helgina eins og alltaf. Á föstudaginn fórum við í grill til Arnars og Tinnu, og þá var mikið stuð hjá Ingu að leika við Emblu Eik. Daníel Darri fylgdist tjillaður með. Þetta minnti á grillstemmninguna hjá okkur í Danmörku, en þar bjuggum við á tímabili í sömu byggingunni og borðuðum saman a.m.k. einu sinni í viku:)

Á laugardaginn fórum við í kaffi til langömmu Ingu, en þar var stórfjölskyldan mætt. Þar hitti Inga Bríet fyrir Þorgerði og Pétur, og má segja að þeim hafi tekist í sameiningu að mylja kleinum út um alla íbúð. Um kvöldið fórum við svo í mat til Kristínar, Kjartans og Silju. Við fórum í popppunkt sem ég og Bjössi unnum. Það er gott að ég veit svona mikið um tónlist!:)

Í gær fórum við í göngutúr, kíktum í heimsókn til Gunnars og Önnu í nýja húsið og enduðum skemmtilega helgi í mat í Réttó hjá mömmu og pabba. Þar voru líka Ásrún og fjölskylda. Inga er alltaf í essinu sínu þegar hún hittir systkinabörn mín. Hún og Bergur léku sér úti í garði sem Ingu finnst frekar mikið sport. Inga var með lítinn sóp á pallinum og keyrði um á litlum bíl. Garðurinn er mjög skjólsæll og þar á eftir að vera mikið fjör í sumar hjá frændsystkinunum!:)

Svo líður bara að Júróvisjon sem er svaka skemmtilegt fyrir júróvisjonnerda eins og mig. Júróvisjon og kosningar auðvitað:) hehe