Tveir montrassar

Sunday, October 28, 2007

Ný orð hjá montrassinum

óvart
víst
skítugt
hættu

Mikið notað orð til áherslu: núna! Eins og t.d. fram núna, núna út.....o.s.frv.

Þegar maður segir "nei" við hana, þá segir hún "jú víst".

Ákveðin ung dama!

Monday, October 22, 2007

Inga Inga Inga

Inga Bríet var heldur montin á föstudag. Hún kom heim af leikskólanum með stimpil á höndinni en það þýðir að hún pissaði í klósettið:) Hún var alveg með það á hreinu, og er búin að tala mikið um þennan stimpil, bendir enn á höndina þó hann sé farinn af. Um helgina er hún búin að biðja um að fá að pissa í klósettið reglulega, en það hefur nú aldrei komið neitt. En þetta finnst henni greinilega svaka sport.

Þegar við vorum að borða á laugardagskvöldið var Inga Bríet með kubba við borðið. Hún lamdi þeim í borðið svo úr varð mikill hávaði. Þegar hún var búin að gera það í þónokkra stund hætti hún, lagði kubbana frá sér og setti vísifingurinn fyrir munninn og sagði "usssss". Við gátum ekki annað en hlegið!:)

Inga Bríet er jafn heimakær og mamma hennar var þegar hún var lítil (og er enn:)). Inga Bríet segir þegar henni finnst hún vera búin að vera nógu lengi t.d. í heimsókn "Fara heim, koma í jakkann" :). Mamma hennar afgreiddi málið þannig, að þegar henni fannst hún búin að vera nógu lengi í heimsókn einhversstaðar, þá náði hún bara í skóna fyrir alla fjölskylduna!

Inga Bríet er alltaf syngjandi og það er alveg ótrúlegt hvað hún kann mikið af textum. Þegar við mæðgur komum heim í dag þá sagði hún: "Syngja Gamli Nói", og svo kunni hún bara textann nokkurn veginn. Önnur lög sem hún kann nokkuð vel eru: Allir krakkar, Allur matur á að fara...., Bangsi lúrir, Upp upp upp á fjall, Gulur-rauður-.....,og eflaust einhver fleiri.

Jæja, nóg af Ingu Bríeti í bili:) Læt inn mynd fljótlega.......

Wednesday, October 10, 2007

Nokkrir gullmolar

Við Inga Bríet sátum inni í eldhúsi síðastliðin laugardagsmorgun að borða morgunmat. Ingu fannst mamma hennar ekki alveg nógu hress og sagði: "Mamma, brosa" og brosti svo sjálf út að eyrum.....

Inga Bríet labbaði inn í stofu í gær með blautþurrku í annarri hendinni og Dóru dúkkuna sína í hinni hendinni. Inga lagði hana á sófaarminn og reyndi að toga niður um hana buxurnar. Svo sagði hún: "Taka kúkinn".

Inga Bríet fann rúsínu á gólfinu, en ég hef reynt að segja henni að hún eigi ekki að borða mat upp af gólfinu, segi henni að maturinn sé gamall og það eigi að henda honum í ruslið. Inga hinsvegar sagði við þetta tækifæri: "Inga borða gamla rúsínu" og stakk henni upp í sig!


Annars er Inga Bríet búin að vera lasin síðan á sunnudaginn en er vonandi að braggast. Slæmt að detta svona út úr leikskólarútínunni þegar hún er svona nýbyrjuð. Sjáum til hvort hún verði ekki bara fegin þegar hún kemst á leikskólann aftur. Hún talar allavega mikið um að hana langi að fara út að moka:)

Friday, October 05, 2007

Inga Bríet leikskólastelpa

Allt gott að frétta af Ingu litlu. Hún aðlagast vel á leikskólanum og er búin að auka orðaforðann enn frekar. Hún sagði við mig í gær: "Mamma, koma í salinn". Það finnst henni greinilega mikið fjör, þar fá þau að hlaupa og losa orku! Verst að mamman gat ekki uppfyllt þessa ósk hennar, enda ekki með lykil að leikskólanum. Hún segir líka: "Pissa í klósettið", "Henda í ruslið" og svo setur hún fingurinn fyrir munninn og segir "ussss":) Hún sönglar líka og kann fleiri laglínur en áður en hún byrjaði á leikskólanum. Vinsælt orð hjá henni núna er "ekki". Það er greinilega smá barátta á leikskólanum!

Hún er alltaf svakalega ánægð þegar ég kem og næ í hana og segir alltaf: "Mamma, koma í bílinn" og segir svo "bæbæ" við krakkana. Þegar ég var búin að setja hana í bílstólinn í dag og sest inn í bíl þá leit ég aftur í og þar sat litla daman skælbrosandi og sagði: "Mamma komin". Krútt!

Á morgun er það svo Litli íþróttaskólinn og á sunnudaginn 2 stk. 4 ára afmæli. Inga kann afmælissönginn þannig að það verður gaman að sjá hana taka undir!