Tveir montrassar

Wednesday, January 30, 2008

Tíminn flýgur

Tíminn líður hratt þessa dagana. Ég er komin rúmar 36 vikur á leið sem þýðir að það styttist óðum í montrass númer 2. Inga kyssir bumbuna reglulega og segir að litla systkinið hennar sé inni í bumbunni. Segir líka að bráðum komi það til okkar:).

Fyrir settan dag er margt að gerast hjá okkur fjölskyldunni. Bæði það að við erum að fara að flytja og svo verður frumburðurinn tveggja ára innan skamms. Mér finnst ótrúlega stutt síðan að við héldum upp á eins árs afmælið! Inga Bríet er búin að panta Latabæjarköku og talar mikið um að bráðum eigi hún afmæli. Latibær er alveg í uppáhaldi hjá henni!

Núna er svaka sport hjá Ingu að hvísla. Hún hvíslaði t.d. að mér í fyrradag: "Fá kókómjólk, mamma líka, ekki sulla.....". Vill líka syngja "hvíslandi".

Ég skal henda inn einni bumbumynd fljótlega:) Sennilega samt ekki fyrr en eftir helgi, þar sem ég er búin að pakka myndavélasnúrunni......hehehhe

Monday, January 07, 2008

Af Ingu Bríeti

Einn gullmoli í viðbót sem ég hef gleymt að setja hérna inn:
Inga Bríet var að horfa á Heru söngkonu í Stóru stundinni (Heru sem er alltaf máluð með eitthvað munstur við augað). Inga Bríet sagði við það tilefni: "Hún er skítug í framan".

Það snýst annars allt um "ég á þetta" þessa dagana. Krúttlegast er þó þegar hún segir við okkur foreldrana : " ég á þig mamma" og "ég á þig pabbi". Þegar hún þarf að koma þessu á framfæri við aðra þá segir hún "ég á þessa mömmu". Fyrst sagði hún alltaf "ég á þetta mamma". Setningarnar eru alltaf að þróast hjá henni og hún fer létt með að halda uppi samræðum, meira að segja í síma:).

Henni finnst rosalega gaman að láta elta sig og biður mig um að koma að hlaupa. Hún fær algjört hláturskast þegar ég elti hana og fær seint nóg af leiknum.
Núna er hún búin að liggja inn í rúmi í einn og hálfan tíma að tala við sjálfa sig, alltaf sami orkuboltinn. Hún fer vonandi að heimsækja draumalandið fljótlega:)