Tveir montrassar

Thursday, June 24, 2010

Fréttir af sætu systkinunum

Hlaupabólan mætti galvösk inn á heimilið í júní. Fyrst fékk Kristinn hana og núna er Inga greyið heldur betur skrautleg. Ég nýtti tækifærið á meðan Kristinn var með hlaupabóluna og tók af honum bleyjuna og það gekk eins og í sögu. Núna er heimilið í fyrsta skipti bleyjulaust síðan í febrúar 2006!

Annars er allt gott að frétta. Það er gaman að fylgjast með hvað Kristinn og Inga eru góð saman og miklir vinir. Auðvitað eiga þau það til að pirra hvort annað, en það er bara eðlilegt. Flestum stundum una þau sér vel saman og finnst fátt skemmtilegra en að vera úti á palli eða fyrir framan hús að kríta eða hjóla.

Kristinn er algjörlega altalandi. Eins og hann er fjörugur, alltaf úti um allt að gera æfingar eins og íþróttaálfurinn, þá er hann líka mjög varkár. Honum er t.d. meinilla við að keyra nálægt vatni og segir iðulega við þær aðstæður: "pabbi, ekki detta í stóra baðið":) Einu sinni bætti hann líka við: "Þetta er ekki krókódílavatn, neiiiiiiii....."
Einu sinni sagði hann alltaf þegar hann var ítrekað að biðja um eitthvað "eitt í viðbót og svo búið". Núna segir hann: "eitt í viðbót........og svo meira og meira og meira........." og setur upp þvílíkt glott! Hann er alltaf brosandi og það er greinilega mjög gaman að vera hann!

Inga Bríet er rosalega góð við bróður sinn. Hún sagði við mig um daginn: "mamma, ég er svo glöð með hvað Kristinn er duglegur að pissa í koppinn". Hún er með þvílíka verndartilfinningu gagnvart honum og hann er heldur betur í öruggum höndum þegar hann byrjar á leikskólanum hennar í haust:)